Við töluðum við Hildi Guðnýju Ásgeirsdóttur um grein sem hún skrifaði í nýjasta rit Geðverndar en þar skrifar hún um áhrif áfalla á sjálfsvígshegðun og þar koma fram athyglisverðar upplýsingar um hvaða áhrif Hrunið 2008 hafði. Hildur Guðný lauk doktorsvefnefni í lýðheilsuvísindurm frá Læknadeild HÍ þar sem hún kannaði tengsl milli áfalla á lífsleiðinni og sjálfsvígshegðunar meðal karla og kvenna.
Hvað er í boði á söfnunum í samkomubanni? Við heyrðum í Áslaugu Guðrúnardóttur kynningarstjóra Listasafns Reykjavíkur um það hvað safnið er að bjóða uppá, en af því má nefna sýningu á Kjarvalsstöðum sem hægt er að njóta utan frá, með því að horfa inn um glugga hússins frá Klambratúni. Á sýningunni eru skúlptúrar eftir sex listamenn og eru upplýsingar um verkin að finna í texta á rúðunum. Leiðsagnir um sýningar hafa verið teknar upp með hljóði og mynd og Kennsluefni til fjarkennslu hafa verið tekin upp. Á heimasíðu safnsins undir „miðlun“ er að finna heilmikið af efni sem kennarar og aðrir geta nýtt sér í fjarkennslu.
Og lesandi vikunnar í þetta sinn var Sigurður Helgi Pálmason. Hann er safnvörður í Myntsafni Seðlabanka Íslands og stýrði sjónvarpsþáttunum Fyrir alla muni sem voru á dagskrá RÚV í vetur. Fyrst sagði hann okkur frá því að hann er búinn að vera að taka ljósmyndir af miðum í gluggum verslana í miðbænum, með skilaboðum til viðskiptavina tengdum samkomubanninu og ástandsins vegna COVID-19. Mjög áhugaverðar heimildir um þessa fordæmalausu tíma. Við fengum svo að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hans, hvað hann hefur verið að lesa undanfarið, sem eru meðal annars bækur sem hann hefur lesið með sonum sínum, bækur um þjóðminjar, ljósmyndir og kynlífsstellingar.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON