María Loftsdóttir er alþýðulistakona og heimshornaflakkari, á ferðum sínum er hún gjarnan með pappír og liti í farteskinu og fangar það sem fyrir augu ber. Á Covid-tímum tóku innanlandsferðir og göngutúrar við, heimaslóðirnar í Grafarvogi urðu innblástur þessarar sýningar. Akrýlmyndirnar eru átta og í hverri þeirra leynist vísbending um hvaða hverfi er um að ræða. María hefur haft brennandi áhuga á myndlist frá barnæsku og sótt námskeið hjá myndlistarmönnum hérlendis og erlendis og er félagi í Litku, Litagleði, Norrænu vatnslitasamtökunum og Vatnslitafélagi Íslands. Við keyrðum uppí Grafarvog og hittum Maríu í Borgarbókasafninu þar sem menningin blómstrar.
Eins og við sögðum frá í upphafi þáttarins þá fæddust fyrstu íslensku fjórburarnir, þar sem öll börnin lifðu, á þessum degi árið 1988, fjórar stúlkur. Alexandra, Brynhildur, Diljá og Elín Guðjónsdætur og þær eiga sem sagt afmæli í dag, eru þrjátíu og þriggja ára. Við hringdum í eina þeirra, Alexöndru og óskuðum henni til hamingju með afmælið.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Brynhildur Bolladóttir upplýsingafulltrúi Rauða krossins. Við fengum að vita hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON