Á laugardaginn er alþjóðadagur heilablóðfalls, en heilablóðfall er þriðja algengasta dánarorsökin í heiminum og tvær manneskjur fá slag á dag hér á landi. Heilaheill vinnur að velferðar- og hagsmunamálum þeirra er fengið hafa slag eða heilablóðfall og aðstandendum þeirra. Þeir Þórir Steingrímsson, formaður Heilaheilla og Björn Logi Þórarinsson, lyf- og taugasérfræðingur á Landspítalanum, komu í þáttinn og fræddu okkur um heilablóðfall, algengi, að þekkja helstu einkenni og viðbrögð og svo frá dagskránni á laugardaginn þar sem Heilaheill verður með fræðslu og ráðgjöf í Kringlunni, Smáralindinni og á Glerártorgi milli kl.13-15.
Við vorum svo í sambandi við Spán, nánar tiltekið Tenerife, sem er orðin ein af uppáhalds eyjum Íslendinga. Við ræddum við Sigvalda Kaldalóns, öðru nafni Svala, en hann hefur búið með fjölskyldunni á eyjunni frá árinu 2017, með smá hléi í heimsfaraldrinum. Þau hjónin, ásamt öðrum eru að byggja upp fyrirtæki í ferðaþjónustu, en um 30 þúsund Íslendingar fara til Tenerife á ári. Svali segir að það sé heilmargt að skoða og upplifa á eyjunni sem ekki margir hafa hugmynd um. Það eru til dæmis 5 gróðurbelti á þessari litlu eyju. Svali fræddi okkur um Tenerife í dag.
Tónlist í þættinum í dag:
Það styttir alltaf upp / Ragnar Bjarnason (Jón Jónsson)
One of These Things First / Nick Drake (Nick Drake)
Elmar Hrafn / Geirfuglarnir (Halldór Gylfason)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR