Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Anna Svava Knútsdóttir, leikkona og grínari. Hún leikur stórt hlutverk í Verbúðinni og hefur margoft staðið sig mjög vel í Skaupinu. Hún rekur einnig ísbúðina Valdísi, ásamt eiginmanni sínum Gylfa Þór Valdimarssyni og nýlega opnuðu þau heimsendingarþjónustuna www.matsedill.is. Anna Svava er nú stödd á Spáni en fjölskyldan ákvað að búa þar í u.þ.b. hálft ár þannig að hún var í beinni útsendingunni úr blíðunni á Spáni. Við fórum á handahlaupum með Önnu í gegnum lífið, frá Fossvoginum til Köben, þaðan til London og svo sagði hún okkur frá því þegar leiklistin fór að láta á sér kræla og uppistandið óvænt líka.
Í matarspjalli dagsins var Diljá Ámundadóttir Zöega gestur Sigurlaugar þar var umræðuefnið gamaldags íslenskur matur, stundum kallaður ömmumatur. Hryggur, læri, kjöt- og fiskfars, fiskibollur, svuntur, fiskverslanir og fleira.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON