Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var einn af stórleikurum þjóðarinnar, Arnar Jónsson, en hann á einmitt áttræðisafmæli á morgun, laugardaginn 21.janúar. Hann hefur leikið vel á annað hundrað hlutverk í leikhúsum landsins, mörg af þekktustu burðarhlutverkum leikbókmenntanna. Arnar hefur auðvitað líka leikið í fjölda kvikmynda og í miklu magni sjónvarpsefnis og hefur tekið þátt í miklu grasrótarstarfi í leikhúsinu, með leikhópnum Grímu, Alþýðuleikhúsinu o.fl. meðfram því að leika í stofnanaleikhúsunum. Arnar leikur De Sade markgreifa í leikritinu Marat/Sade sem verður frumsýnt í kvöld í Borgarleikhúsinu. Það var því um nóg að ræða við Arnar í þættinum í dag, en við forvitnuðumst um hans æsku og uppvöxt og svo ferðalagið í gegnum lífið og leikhúsið til dagsins í dag.
Í dag er bóndadagur, fyrsti dagur í þorra. Nú fyllast trog og bakkar um allt land af þorramat, súrum og ósúrum. Við fengum af því tilefni Jóhannes Stefánsson, eða Jóa í Múlakaffi, til að koma í þorramatarspjall í dag. Þar á bæ er allt á fullu á þessum tíma enda sækir gríðarlegur fjöldi sinn þorramat þangað og þau laga allan þorramat sem þar er í boði frá grunni. Jói kom með fullt fangið af þorramat og við smökkuðum hjá honum kræsingarnar og forvitnuðumst um þær í leiðinni.
Tónlist í þættinum í dag:
Niðrí bæ með bónda mínum / Borgardætur (Irving Berlin og Friðriks Erlingssonar)
Skáldið og bóndinn / Bogomil Font og hljómsveitin Flís (Rafael De Leon og Sigtryggur Baldursson)
Non, je ne regrette rien = Nei, ég iðrast ekki neins / Brynhildur Guðjónsdóttir (Charles Dumont, Michel Vaucar og Þórarinn Eldjárn)
Þorrablót / Pétur Pétursson og Sigfús Pétursson (Ögmundur Eyþór Svavarsson)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG MELKORKA ÓLAFSDÓTTIR