Við heyrðum í Vigdísi Þórarinsdóttur í þættinum í dag. Hún fluttist ung til Hollands að vinna fyrir Eimskip, kynntist hollenskum manni, þau eru gift í dag, eiga fjóra drengi og hún er enn að vinna hjá Eimskipum. Yngstu synir hennar, Arnar Jan og Thomas Orri, eru níu ára í dag, þeir fæddust með mjög sjaldgæfan vöðvarýrnunarsjúkdóm sem veldur því að þeir þurfa aðstoð með nánast allt og þeir ganga með göngugrindur og nota hjólastóla í lengri vegalengdir. Vigdís sagði okkur sögu þeirra og frá húfum sem eru prjónaðar af ömmu drengjanna og seldar bæði á Íslandi og í Hollandi vegna söfnunar sem þau eru að standa fyrir til að standa undir breytingum á heimili þeirra sem hentar betur fyrir tvíburana.
Jóhanna María Gunnarsdóttir hársnyrtimeistari missti meðvitund og féll í gólfið heima hjá sér í byrjun hausts og hlaut höfuðkúpubrot og alvarlegan heilahristing. Hún þurfti í kjölfarið að hætta að vinna og var send á Grensásdeildina í endurhæfingu. Þar komst hún að því að deildin er fjársvelt og töluvert margt sem þurfti að endurnýja, til dæmis í tækjakosti. Jóhanna setti í gang fjársöfnun fyrir Hollvini Grensás og mörg fyrirtæki hafa lagt söfnuninni liðsinni með því að gefa til dæmis tæki og tól sem nýttust vel í starfinu. Í desember s.l. greindist svo Jóhanna með afar sjaldgæft krabbamein sem aðeins 12 þúsund manns í heiminum greinast með á hverju ári og hóf hún lyfjameðferð á Þorláksmessu. Jóhanna kom í þáttinn í dag og sagði sína sögu og frá söfnuninni fyrir Grensásdeild, Endurhæfingardeild Landspítalans.
Svo heyrðum við í Gunnari Gunnarssyni, ritstjóra Austurfrétta, sem er frétta- og mannlífsvefur sem fjallar um allt sem gerist á Austurlandi. Við höfum til dæmis gjarnan fundið skemmtileg efni á vefnum sem við höfum fjallað um hér í Mannlega þættinum. Nú er Austurglugginn 20 ára, en Austurglugginn er vikublað undir sama hatti og austurfrett.is. Við spurðum í þættinum Gunnar ritstjóra út í hvað sé að frétta að austan og hann sagði okkur frá rekstrinum og starfinu.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON