Á næsta ári verða 50 ár liðin frá heimkomu fyrstu handritanna 21. apríl 1971. Af því tilefni hefur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hafið undirbúning að verkefni sem miðar að því að kynna öllum sjöttubekkingum landsins sögu íslenskra miðaldahandrita og menningararfleifðina sem í þeim býr. Og nú er einnig verið að þróa afþreyingu/leik út frá gagnasöfnum Árnastofnunar og það er Vinafélag Árnastofnunnar sem stendur að því verkefni. Eva María Jónsdóttir, frá Árnastofnun, og Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, sem er í stjórn Vinafélags Árnastofnunar, komu í þáttinn og sögðu okkur meira frá þessu í þættinum.
Fjórtánda sumarið í röð leggur Leikhópurinn Lotta land undir fót og ferðast með glænýja fjölskyldusýningu um landið þvert og endilangt. Í sumar er það fjölskyldusöngleikur byggður á þjóðsögunum um Bakkabræður og að sjálfsögðu með svokölluðu Lottutvisti. Kórónuveirufaraldurinn setti strik í æfingaferlið og það var áskorun að æfa saman söngleik í gegnum Zoom í tölvunni. Þórunn Lárusdóttir leikstjóri og Anna Bergljót Thorarensen höfundur, komí þáttinn.
Gríðarlega athygli vakti þegar Angelina Jolie leikkona tilkynnti fyrir nokkrum árum að hún væri með braca 1 brjóstakrabbameinsgenið. Þá fjölgaði verulega þeim sem óskuðu eftir viðtali við erfðaráðgjafa Landspítalans sem tala um erfðafaraldra þegar aðsókn eykst vegna umfjöllunar í fjölmiðlum. Þrír erfðafaraldrar hafa geysað hér á landi. Bergljót Baldursdóttir heimsótti Vigdísi Stefánsdóttur og Eirnýju Þórólfsdóttir hjá erfðaráðgjöf Landspítalans á Heilsuvaktinni.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON