Það ætti ekki að hafa farið framhjá mörgum að 50 ár voru liðin frá upphafi eldgossins í Heimaey þann 23.janúar. Gosið setti líf Vestmannaeyinga í uppnám, heilu fjölskyldurnar þurftu að yfirgefa heimili sín með hraði og skilja megnið af aleigunni eftir. Um tveimur vikum eftir að gosið hófst hóf göngu sína útvarpsþáttur í Ríkisútvarpinu sem kallaðist Eyjapistill. Þátturinn var í loftinu í rúmt ár og urðu þættirnir alls tvöhundruð sextíu og einn. Í þeim voru til dæmis tekin fjölbreytt viðtöl tengd gosinu og Vestmannaeyjum, það voru birtar tilkynningar um týnda muni, sagðar fréttir af fólki og þróun mála í gosinu og spiluð tónlist. Við fengum þá bræður, Arnþór og Gísla Helgasyni, sem voru umsjónarmenn Eyjapistilsins, í þáttinn til að rifja upp þennan merkilega tíma og þættina, auk þess sem við fengum að heyra brot úr Eyjapistlinum í þættinum í dag.
Rannsóknir sýna að sú andlega og tilfinningalega vinna sem fylgir því að skipuleggja heimilislíf, sem sagt önnur og þriðja vaktin, veldur ofálagi. Bent hefur verið á í því sambandi að þessi vinna sé ósýnileg, óþekkt og vanmetin, sem rekja megi til þess að úrelt kynjaviðmið séu enn við líði í nútíma samfélagi. Haukur Þór Stephensen og Helgi Már Friðgeirsson, nemendur í viðskiptafræði með áherslu á verkefnastjórnun við Háskólann á Bifröst, skrifuðu ritgerð um hversdagslega verkefnastjórnun og notkun hennar til að jafna verkaskiptingu hvað varðar aðra og þriðju vaktina. Markmið ritgerðarinnar var að skyggnast inn í og einangra þá þætti í lífi íslenskra fjölskyldna sem verkfæri verkefnastjórnunar geta auðveldað og aukið á jafnari dreifingu verkefna milli fjölskyldumeðlima. Þeir Haukur og Helgi sögðu okkur frá þessari rannsókn og fræddu okkur líka í byrjun hreinlega um hvað önnur og þriðja vaktin eru, því það vita það ekki allir.
Tónlist í þættinum í dag
Vestmannaeyjar / Gísli Helgason (Arnþór Helgason)
Heimaslóð / Ási í Bæ (Alfreð Washington Þórðarson og Ástgeir Kristinn Ólafsson)
El duende / Egill Ólafsson og Ellen Kristjánsdóttir (Egill Ólafsson)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR