Benni Hemm Hemm á að baki farsælan tónlistarferil, innan þess geira sem oftast er kenndur við popp. Hann var þó ekki allskostar ánægður í hlutverki poppstjörnunnar og þurfti um tíma að leita á nýjar slóðir til að finna andagiftina. Á óvæntum slóðum, meðal annars hjá miðli, fann hann nýjar leiðir til að virkja sköpunarkraftinn, sem oft á tíðum er nær, en okkur grunar. Benni Hemm Hemm var að gefa út nýja plötu og ljóðabók og hann verður gestur okkar í dag.
Um liðna helgi var frumsýnt nýtt íslensk verk í Tjarnarbíói, Fíflið eftir Karl Ágúst Úlfsson. Á sýningunni eru áhorfendur kynntir fyrir hirðfíflum allra tíma og heimshluta og rýnt er í samband fíflsins og valdsins. Eva Halldóra Guðmundsdóttir skellti sér á Fíflið og segir frá sinni upplifun.
Við fjöllum líka um Riget, eða Lansann, all sérstakar sjónvarpsseríur sem leikstjórinn Lars von Trier gerði á tíunda áratugnum, en er nú haldið áfram með nýrri seríu 25 árum eftir að sú síðasta kom út.