Bókmenntafræðingurinn Aðalheiður Guðmundsdóttir hefur rannsakað sérstaklega hlutverk vetrarins og myrkursins í íslenskum ævintýrum. Í grein í nýjasta tölublaði Ritsins setur hún ævintýrin í samhengi við líf og lífsskilyrði Íslendinga áður fyrr og skoðar myrkrið og birtingarmyndir þess, sem gegnir að hennar sögn lykilhlutverki, ekki síst vegna þess að myrkrið kallar á andstæðu sína, ljósið, eða vonina.
Ný íslensk ópera verður frumflutt í Hörpu um næstu helgi, Ragnarök eftir Helga R. Ingvarsson. Uppfærslan er hluti af Óperudögum og er flutt í samstarfi við Kammeróperuna. Í verkinu kynnumst við ásunum og sjáum hvernig hroki þeirra, lygar og hégómi leiðir til dauða þeirra í loka bardaganum, Ragnarökum. Helgi lítur við í hljóðstofu í þætti dagsins
Gauti Kristmannsson verður líka með okkur og rýnir að þessu sinni í þýðingu Móheiðar Geirlaugsdóttur á ljóðabókinni Ariel, eftir Sylvíu Plath.