Bruninn á Hjarðarhaga í síðustu viku hefur vakið mikla athygli og er til rannsóknar hjá lögreglu.
Fjórir menn bjuggu saman í íbúðinni sem er 80 fermetrar að stærð og með þremur herbergjum, samkvæmt fasteignamati. Þeir voru allir að erlendu bergi brotnir. Einn Bandaríkjamaður, einn Tékki og tveir Ungverjar. Þeir tengdust ekki innbyrðis. Búið var að stúka af hluta íbúðarinnar til að búa til fleiri lokuð rými fyrir leigjendurna.
Tveir af mönnunum létust í brunanum og sá þriðji særðist alvarlega. Hann komst við illan leik út um glugga á íbúðinni. Fjórði maðurinn var ekki heima þegar þessi harmleikur átti sér stað.
Í þetta helst í dag er rætt við Guðmund Hrafn Arngrímsson, formann leigjendasamtakanna, og Sögu Kjartansdóttur hjá ASÍ um þetta búsetufyrirkomulag margra erlendra verkamanna hér á landi, hversu algengt það er og hvaða vandkvæði fylgja því. Guðmundur Hrafn kallar þetta búsetuform herbergjahótel.
Umsjón: Ingi Freyr Vilhjálmsson