Einræðisherrar verða fyrirferðamiklir í þætti dagsins. Við fjöllum um svalasta einræðisherra heims, að eigin sögn, og svo þann sem virðist vilja feta í fótspor hans með svo margt, og þeirra nána samband. Sá fyrrnefndi en Nayib Bukele, forseti El Salvador og sá síðarnefndi er Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Á stuttum stjórnmálaferli hefur Nayib Bukele gjörbreytt El Salvador, morðtíðni hefur lækkað mikið en hann hefur fangelsað rúmlega 80 þúsund manns á þremur árum. Bukele reisti risastórt fangelsi og vill taka við föngum annars staðar frá, til dæmis frá Bandaríkjunum. Þangað hefur Donald Trump sent nokkur hundruð manns, jafnvel án þess að taka mál þeirra fyrir í Bandaríkjunum. Trump segist engu að síður ætla að senda miklu fleiri þangað. Honum líst vel á kollega sinn sem hefur aukið völdin með því að breyta stjórnarskrá, til að geta setið áfram, og rekið hæstaréttardómara sem honum hugnast ekki. Það má segja að Trump sé orðinn að eins konar lærlingur Bukele, því margt af því sem hann hefur gert í heimalandinu langar Trump að gera í Bandaríkjunum.