Gallerí Barmur var einstaklega forvitnilegt gallerí sem var starfrækt á árunum 1996-1998. Þetta var farandgallerí sem ferðaðist á barmi mismunandi fólks í formi nælu, og nú eru þessar nælur til sýnis ásamt hinum ýmsu gögnum sem tengjast rekstrinum, í Hönnunarsafninu í Garðabæ. Við ræðum við fólkið á bak við Gallerí Barm í þætti dagsins, hjónin Tinnu Gunnarsdóttur og Sigtrygg Bjarna Baldvinsson.
Sigrún Alba Sigurðardóttir gaf nýverið út sína tíundu bók, sem hún segir vera sína stystu en jafnframt þá sem erfiðast var að skrifa. Þegar mamma mín dó, heitir hún, og er persónuleg frásögn um þær sterku tilfinningar sem togast á þegar dauðinn knýr dyra, ást og umhyggju, samviskubit og vanmátt. Sigrún Alba segir okkur nánar frá bókinni í síðari hluta þáttar.
Gauti Kristmannsson rýnir í skáldsöguna Ég heyrði Ugluna kalla á mig, eftir Margaret Crave, í þýðingu Gunnsteins Gunnarssonar.