Í Gallerý Kontór á Hverfisgötu 16a sýnir Hulda Hákon ný verk. Á Landsenda kallar hún sýninguna, en þar er að finna lágmyndir þar sem sælir og makindalegir ísbirnir eru í aðalhlutverki, en einnig örnefni, sjómennska, kortagerð, ævintýri og almennur grallaraskapur. Víðsjá hitti Huldu við verkin, þar sem hún sagðist meðal annars vera orðin svo þreytt á öllum hörmungum heimsins, að hana hafi langað til að gera bjarta og fallega sýningu. Það er meira en óhætt að segja að henni hafi tekist áætlunarverkið. Meira um það í þætti dagsins.
Við heyrum einnig myndlistarrýni Rögnu Sigurðardóttur, rýni í leikverkið Þetta er gjöf í Þjóðleikhúsinu og við heyrum einnig í Einari Má Hjartarsyni, sem þýddi árið 2023 bók nýja nóbelskáldins, László Krasznahorkai, nóvelluna Síðasti úlfurinn.