Við héldum áfram á vegferð okkar að skoða og fræðast um áföll og afleiðingar áfalla. Gríðarlega stór hluti samfélagsins glímir við afleiðingar áfalla, auðvitað geta áföllin verið misstór og staðið yfir í mislangan tíma, en ef fólk kemst ekki yfir þau og fær ekki hjálp að vinna úr þeim þá geta afleiðingarnar fylgt þeim ævilangt. Berglind Guðmundsdóttir, yfirsálfræðingur á geðsviði Landspítala og prófessor við Háskóla Íslands, er einn helsti sérfræðingur á Íslandi um áföll og áfallastreituröskun og hún hjálpaði okkur að skilja betur áföll, afleiðingar þeirra og hver meðferðarúrræðin eru.
28. febrúar er alþjóðlegur dagur sjaldgæfra sjúkdóma. Í tilefni dagsins verða kennileiti um allan heim lýst upp og hér á landi verða Perlan, Harpa og Hallgrímskirkja formlega með. Í dag verður sérstakt málþing á vegum Einstakra barna um stöðu foreldra barna með sjaldgæfa sjúkdóma. Ingibjörg Björnsdóttir kom í þáttinn og sagði okkur frá niðurstöðum úr meistararitgerð sinni um kulnun hjá foreldrum barna með sjaldgæfa sjúkdóma. Með henni kom Guðrún Helga Harðardóttir fjölskyldufræðingur og framkvæmdastjóri hjá Einstökum börnum.
Elín Björk Jónasdóttir kom svo til okkar í dag í sitt vikulega veðurspjall. Við komumst auðvitað ekki hjá því að ræða við hana veðrið sem hefur verið undanfarið og hvað er framundan, en hún fræddi líka okkur um sviptivinda.
Tónlist í þættinum í dag:
Vindur / Magnús Eiríksson og KK (Kristján Kristjánsson og Magnús Eiríksson)
A Change is Gonna Come / Sam Cooke (Sam Cooke)
Mississippi / The Cactus Blossoms (Torrey)
Ég man þá tíð / Uppáhellingarnir (Jón Múli og Jónas Árnasynir)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR