Föstudagsgesturinn okkar í dag var Birgitta Haukdal söngkona með meiru og nú síðustu ár einnig rithöfundur en hún hefur gefið út fjölmargar barnabækur ?um Láru og Ljónsa og Þjóðleikhúsið frumsýnir nýtt íslenskt barnaleikrit á morgun eftir hennar sögu, Lára og Ljónsi, jólasaga. Guðjón Davíð Karlsson skrifar leikgerð og leikstýrir og ný tónlist eftir Birgittu prýðir sýninguna. Birgitta talaði um æskuna á Húsavík, íþróttaferilinn, þverflautuna, árin í Barcelona og söngferilinn.
Matarspjallið var á sínum stað með Sigurlaugu Margréti, en hún á afmæli í dag. Ragnar Freyr Ingvarsson, læknirinn í eldhúsinu, kom sem óvæntur gestur í þáttinn, var í rauninni afmælisgjöf þáttarins til Sigurlaugar, en hann kom með nýju bókina sína, glóðvolga úr prentun, Heima hjá lækninum í eldhúsinu. Ragnar sagði frá tilurð bókarinnar og uppskriftunum sem hann eldaði allar heima hjá sér.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON