Birkir Helgason lenti í bílslysi fyrir nokkrum árum, hann var kokkur en var ráðlagt af lækni að leita sér að öðrum starfsvettvangi eftir slysið. Hann lagði síður en svo árar í bát, fór og náði sér í sjó í Berufjörðinn og fór að vinna úr honum salt. Hann framleiðir nú salt með þremur bragðtegundum og var að bæta við kryddsmjöri í vöruúrval sitt. Við hringdum austur á Djúpavog og heyrðum í Birki í þættinum.
Við slógum á þráðinn til Kaupmannahafnar, þar fer fram Norðurlandaráðsþing og Þór Jónsson fyrrverandi fréttamaður starfar þar sem túlkur og þýðandi, er reyndar búsettur í borginni og við ræðum við hann um störf hans á svona þingi og svo nýja bók sem gefin er út á Norðurlöndunum um þessar mundir og hann þýddi yfir á íslensku, hún heitir Lífið á Norðurlöndunum og er um margt áhugaverð.
Umhverfislestin hafði viðkomur á Hólmavík laugardaginn 26. okt. Umhverfislestin er farandsýning á vegum Vestfjarðarstofu þar sem fjallað er um umhverfismál heimilanna á fjölbreyttan, fræðandi og skemmtilegan hátt Kristín Einarsdóttir lagði leið sina til Hólmavíkur og talaði við gesti og gestgjafa á sýningunni.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON