Í Davíðshúsi á Akureyri dvelur rithöfundurinn og eigandi Stílvopnsins, Björg Árnadóttir, en hún hefur kennt ritlist í áratugi og heldur líka stundum sköpunarsmiðjur þar sem hún tengir saman allar listgreinar í heilandi og sjálfseflandi tilgangi. Við ræddum við hana um félagsnám og skapandi og valdeflandi kennsluhætti í stærra samhengi en hún hefur hátt í fjörutíu ára reynslu af vinnu með jaðarsettum víða um lönd. Hún stendur fyrir sköpunarsmiðja í Heiðmörk helgina 17-19 sept, nánari upplýsingar er að finna á www.stilvopnid.is.
Við skruppum útí Hrísey og töluðum við ferjuskipstjórann Þröst Jóhannsson á Sævari og Lindu Ásgeirsdóttur, formann ferðafélags Hríseyjar og hún sagði okkur meðal annars frá Hákarla-Jörundi.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Þorgeir Tryggvason, tónlistarmaður t.d. í Ljótu hálfvitunum og nú síðast í dúettnum Down & Out, en hann er auðvitað líka bókmennta- og leikhúsgagnrýnandi sem hlustendur ættu meðal annars að kannast við úr sjónvarpinu í Kiljunni. Við fengum að vita hvaða bækur hann hefur verið að lesa undanfarið og svo hvaða bækur og höfundar hafa haft sérstök áhrif á hann í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON