Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Björn Thoroddsen gítarleikari. Hans ferill er langur og glæstur, hann byrjaði í rokkinu en færði sig fljótlega líka yfir í djassinn og í dag ferðast hann, bæði sem sóló gítarleikari og með hljómsveitum, um heiminn og spilar popp, djass, rock, blús, kántrý og í rauninni bara það sem hann langar í það og það skiptið. Björn verður 65 ára í næstu viku, hann var valinn bæjarlistamaður Hafnarfjarðar í fyrra og við fórum með honum aftur í tímann og fengum hann til að segja okkur frá æskunni og uppvextinum og ferðalaginu í gegnum lífið til dagsins í dag. Auðvitað var gítarinn fyrirferðamikill á þeirri leið, hann sagði frá fyrsta gítarnum sem hann smíðaði sjálfur, náminu í rafeindavirkjun, menningarsjokkinu þegar hann flutti til L.A. og svo í lokin frá 25 ára afmælistónleikum Guitar Islancio sem verða haldnir næsta fimmtudag, 16.feb., í Hörpu.
Í matarspjallinu í dag töluðum við um kartöflur. En kartöflur eru ekki bara kartöflur, það er hægt að matreiða þær á fjölbreyttan hátt og við fórum yfir eftirlætis aðferðir okkar þegar kemur að því að elda kartöflur.
Tónlist í þættinum í dag
Lady Madonna / Björn Thoroddsen (Lennon & McCartney)
Þorraþræll / Björn Thoroddsen (Þjóðlag)
Braggablús / Guitar Islancio (Magnús Eiríksson)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR