Hvernig semur maður nýja tónlist við 100 ára gamla bíómynd? Öld er liðin síðan Saga Borgarættarinnar kom út. Myndin byggir á skáldsögu Gunnars Gunnarssonar sem kom fyrst út í fjórum bindum á dönsku á árunum 1912-14. Bækurnar slógu í gegn, sköpuðu Gunnari mikla frægð og voru fljótlega þýddar yfir á önnur tungumál en Saga Borgarættarinnar kom fyrst út á íslensku á árunum 1915-1918. Ári síðar hófust tökur á myndinni. Kvikmyndamiðstöð Íslands vann stafræna endurgerð af myndinni sem sýnd var í Bíó Paradís á dögunum en til stendur að taka aftur upp sýningar á henni eftir áramót. Þórður Magnússon var fenginn til að semja nýja tónlist við þessa þöglu mynd og hann er gestur Víðsjár í dag .
Í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar fjallar Eyja Margrét Brynjarsdóttir, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, um hugtak sem flest okkar höfum heyrt ansi oft síðustu misseri; slaufun. Í greininni veltir Eyja upp hinum ýmsu spurningum sem geta komið upp koma varðandi hugtakið. Er slaufun ný af nálinni, er hún óvæginn dómstóll götunnar og er slaufun það sama og refsing án dóms og laga?
Eyja segir afar mikilvægt að tala um forréttindi í samhengi við slaufun og svo veltir hún því fyrir sér hvort við lifum við slaufunarmenningu. Samtal um slaufun hér á eftir.
Og við fáum sendingu frá skáld- og listakonunni Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur. Ragnheiður Harpa fjallar í pistlaröð sinni um líkamleika, en líkamleiki er orð innan fyrirbærafræða sem leitast við að endurheimta einlægt samband mannsins við umheiminn. Í þetta sinni mun pistillin fjalla um fætur, og kannski hvert þær geta togað okkur.