Heimildarmyndin Atomy er sýnd á RIFF, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík. Myndin fjallar um Brand Karlsson sem er frumkvöðull, listamaður og ötull baráttumaður fyrir réttindum fatlaðra en hann lamaðist af óþekktum ástæðum fyrir 10 árum og hefur verið bundinn við hjólastól síðan. Hann komst í samband við heilara í Nepal sem hét því að hjálpa honum að öðlast hreyfigetu og ganga aftur. Í heimildarmyndinni fáum við að fylgja Brandi til Nepal og fylgjast með meðferðinni og ferlinu. Við fengum þá Brand og Loga Hilmarsson leikstjóra myndarinnar til að segja okkur frá myndinni í þættinum.
Hvað er sameiginlegt með höndum 1500 Íslendinga? Kl. 17:30 í dag fer fram fyrirlestur í Veröld, húsi Vigdísar um rannsóknina Hendur Íslands sem staðið hefur frá árinu 2016 og telur rúmlega 1500 þátttakendur og þ.a.l. skráningu á rúmlega 3000 höndum. Kynntar verða niðurstöður sem verkefnið hefur nú þegar leitt í ljós en markmiðið með verkefninu er að sjá hvað einkennir Íslendinga öðru fremur og hvort það megi lesa í persónuleika íslensku þjóðarinnar í gegnum hendur og lófa fólks. Við fengum Jönu Napoli, 76 ára samfélagsfrumkvöðul frá Bandaríkjunum, sem stendur að rannsókninni og Freyju Eilífu sem aðstoðar Jönu, til þess að segja okkur betur frá þessari rannsókn og íslenskum höndum.
Annað kvöld verður í beinni útsendingu í sjónvarpinu söfnunarþáttur fyrir Rauða krossinn: Verum vinir. Sveinbjörn Finnsson er sjálfboðaliði í flóttamannaverkefni Rauða krossins og situr í stjórn Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu kom í þáttinn í dag. Hann sagði okkur frá þjónustunni sem flóttamönnum er veitt, hvernig hún gengur fyrir sig, hvers vegna hún skiptir máli og hvers vegna hann er sjálfboðaliði.
Tónlist í þættinum í dag:
Án þín / Sigríður Thorlacius og Heiðurspiltar (Jón Múli og Jónas Árnasynir)
Án þín / Bubbi Morthens og Katrín Halldóra Sigurðardóttir (Bubbi Morthens)
Heimþrá / Erla Þorsteinsdóttir (Freymóður Jóhannsson)
Think it over / Ringo Starr (Buddy Holly & Norma Petty)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR