Guði sé lof að ég er ekki unglingur í dag. Þetta er fyrirsögn á grein sem tveir sálfræðingar hjá Geðheilsumiðstöð barna og verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd skrifuðu saman. Þar eru þau til dæmis að bera saman breytingar í heimi unglinga í dag og þegar þau voru ung. Þá voru engir samfélagsmiðlar, snjalltæki og allt það sem því fylgir. Við fengum tvö þeirra, Daðey Albertsdóttur og Skúla Braga Geirdal, til að koma í þáttinn og segja okkur frá því sem þau eru að fjalla um í þessari grein, þessa breyttu tíma, að alast upp í svona miklu upplýsingaflæði, í öllum þessum samfélagsmiðlum og mögulegar afleiðingar þess.
Þrjár konur, Achola Otieno, Shruthi Basappa og Elizabeth Lay, skrifuðu saman grein á visir.is með fyrirsögninni: Hvernig höldum við samtalinu lifandi? Þar eru þær að bregðast við umræðunni sem kom upp í framhaldi af því að fólk af asískum uppruna benti á að birtingamynd asísks fólks og asískrar menningar í sýningu Íslensku Óperunnar væri særandi, úreld og niðrandi. Þær eru allar íslenskir ríkisborgarar, tala íslensku, ala upp fjölskyldur sínar hér, sinna sinni vinnu og verkefnum og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. En þær segjast þurfa reglulega og síendurtekið að takast á við fordóma í sínu lífi. Achola, Shruthi og Elizabeth komu í þáttinn í dag og sögðu okkur frá sinni reynslu og frá hlaðvarpsþætti sem þær eru að vinna að saman, þar sem þær munu tala um sína reynslu. Þær segja að nú verði þær að nota raddir sínar til að láta í sér heyra, barnanna sinna vegna. Anna Marsibil Clausen las íslenska þýðingu í viðtalinu.
Tónlist í þættinum í dag
Flækt og týnd og einmana / Una Torfadóttir (Una Torfadóttir)
Something better / Kári (Kári Egilsson)
One of These Things First / Nick Drake (Nick Drake)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON