Í Víðsjá dagsins verður rætt við Má Jónsson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands um hugmyndir um að hefja viðræður við Dani um endurheimt íslenskra handrita úr Árnastofnun í Kaupmannahöfn, en greint var frá því í síðustu viku að ríkisstjórnin hafi veitt Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra samþykki til að hefja viðræðurnar.
Silva Þórðardóttir, ung og efnileg djasssöngkona, verður einnig gestur þáttarins en hún er að senda frá sér plötuna Skylark ásamt hljómsveit. Platan geymir nokkra ameríska djassstandarda, en Silva kemur fram á Djasshátíð Reykjavíkur sem hefst formlega í dag í þrítugasta sinn.
Loks verður sjónum beint að óperunni Brúðkaupi Fígarós eftir Wolfgang Amadeus Mozart sem Íslenska óperan frumsýnir í Þjóðleikhúsinu á laugardag. Tveir ævintýramenn sem tengjast óperunni verða sérstaklega til umfjöllunar, leikskáldið Pierre Beaumarchais sem setti fram spurningar um stéttir og forréttindi í leikriti sínu seint á 18. öldog textahöfundurinn Lorenzo da Ponte sem starfaði með Mozart að sköpun þessarar gamanóperu sem á sér engu að síður alvarlegan undirtón.
Umsjón: Eiríkur Guðmundsson og Guðni Tómasson.