Fimmtudagar í september eru helgaðir sviðslistum og í dag var komið að Borgarleikhúsinu. Brynhildur Guðjónsdóttir Borgarleikhússtjóri kom í þáttinn og við spurðum hana út í starfsemina, hvernig þau koma útúr kófinu, hvernig var að taka við rekstrinum korter í Covid og hvernig leikveturinn sem var að hefjast lítur út, smekkfullt leikár framundan.
Hernámsæska í tröllahöndum er yfirskrift fléttu Borgarsögusafns sem fram fer á Ljósmyndasafni Reykjavíkur í kl. 16:30. Að þessu sinni mun Leifur Reynisson sagnfræðingur fjalla um æskuna um og upp úr stríðsárunum. Íslenskt samfélag tók stakkaskiptum þegar erlendir herir námu hér land og unga fólkið fór svo sannarlega ekki varhluta af því. Leifur gerir grein fyrir því hvernig æskan varð til sem sjálfstæður þjóðfélagshópur með eigin menningareinkenni, en tímabilið sem um ræðir nær frá hernámi til rokks og hefur hann sér til fulltingis ljósmyndir úr safni Sigurhans Vignir. Við hringdum í Leif í þættinum.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON