Dagur Norðurlanda verður að vanda haldinn hátíðlegur þann 23. mars nk. Að þessu sinni fagnar Norræna ráðherranefndin fimmtíu ára afmæli og af því tilefni verður efnt til fimm umræðufunda þar sem rætt er hverju Norðurlöndin hafa áorkað í sameiningu. Tekin verða fyrir fimm málefni sem formennskuland ársins, Finnland, leggur áherslu á en það eru norrænar lausnar á sviði jafnréttis, stjórnsýsluhindrana, hringrásarhagkerfis, tjáningarfrelsis og menningar og málefni menningar verður í brennidepli hér á landi og Norræna húsið og Norræna félagið bjóða til pallborðsumræðu. Hrannar B. Arnarson, formaður Norræna félagsins, kom í þáttinn í dag.
Ullarþon er nýsköpunar- og hugmyndasamkeppni haldin á netinu til að ýta undir nýsköpun og vöruþróun, auka verðmæti ullarinnar og þá sérstaklega verðminnstu ullarflokkanna. Íslenska ullin er auðlind sem býður upp á áhugaverða möguleika, til dæmis að vinna ull við mismunandi hitastig og mismunandi rakastig breytir henni talsvert. Því verður forvitnilegt að sjá hvort jafnvel verði fundnar upp einhverjar nýjar aðferðir til að vinna vörur úr ull og jafnvel hvort ullin fá einhver ný hlutverk. Textílmiðstöð Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands halda Ullarþonið dagana 25. - 29. mars nk.og til að segja okkur meira frá því og ullinni kom til okkar Hulda Birna Baldursdóttir verkefnastjórí Ullarþonsins fyrir Nýsköpunarmiðstöð.
Stóra upplestrarkeppnin fór fram á Ströndum, eins og annars staðar á landinu, og var haldin á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði. Kristín okkar Einarsdóttir fór á keppnina og ræddi við Aðalbjörgu Óskarsdóttur kennara, Þórð Helgason fulltrúa Radda og sigurvegara keppninnar Kristjönu Kríu Lovísu Bjarnadóttur sem las sigurljóðið Veislu eftir Gerði Kristnýju.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR