Hjónin Sigurður Rúnar Jónsson tónlistarmaður, eða Diddi fiðla, og eiginkona hans Ásgerður Ólafsdóttir sérkennari ákváðu fyrir 10 árum að flytjast búferlum til Þýskaland og fylgja syni sínum og fjölskyldu en sonurinn, Ólafur Kjartan Sigurðarson óperusöngvari, hafði fengið vinnu við óperuhúsið í Saarbrucken. Þau fluttu svo til Berlínar fyrir tveimur árum. Diddi og Ásgerður hafa verið gift í rúm 50 ár, sögðu okkur frá því hvernig þau kynntust á Akranesi, þau sögðu okkur frá því þegar þau fluttu til Eyja og lentu í gosinu. Diddi sagði frá Stúdíó Stemmu, Ásgerður sagði frá sínu starfi í sérkennslu fyrir einhverfa. 15. apríl verður sérstök síðdegisstund með þeim hjónum í Hannesarholti, þar sem þau munu fara vítt og breitt yfir það sem á daga þeirra hefur drifið og eftir að hafa búið í Þýskalandi í tíu ár hafa þau frá ýmsu að segja varðandi samanburðinn á lífinu hér á Íslandi og í Þýskalandi.
Við töluðum svo við Róbert Ómarsson, 18 ára kokkanema á veitingastað í Osló sem er með Michelin stjörnu en hann gerði sér lítið fyrir og vann Masterchef Unge Talenter sjónvarpskokkakeppni í Noregi. Hann hefur búið í Noregi frá því hann var fjögurra ára og er nú á þriðja ári í kokkanáminu og þessi sigur í sjónvarpskeppninni sýnir að hann á framtíðina fyrir sér sem kokkur. Við hringdum til Osló í dag o fengum Róbert til að segja okkur frá þessari reynslu og lífinu í Noregi.
Já, þetta er síðasti vinnudagur flestra fyrir páskahátíðina og framundan eru fjölmargar fermingarveislur og allskonar veislur og við fengum fyrirspurnir frá nokkrum hlustendum um að endurtaka viðtal sem við áttum við veislusérfræðinginn og veitingahúsaeigandann Marenzu Poulsen sem hefur áratuga reynslu af því að halda veislur af öllu tagi af öllum stærðum og gerðum. Hún sagði frá því hvernig hægt er að reikna út rétta magnið af veigunum, hvenær er nóg af þeim í veislum og hvernig er best að bera fram það sem er í boð. Þetta er afskaplega fróðlegt spjall fyrir þá sem eru að fara að halda fermingarveislu eða útskriftarveislu eða bara veislu af hvaða tegund sem er.
Tónlist:
Segulstöðvarblús / Jóhanna Linnet (Sigurður Rúnar Jónsson og Þórarinn Eldjárn)
Gamla gatan / Jóhann Sigurðarson (Oddgeir Kristjánsson og Ási í Bæ)
Vor við sæinn / Sigrún Hjálmtýsdóttir (Oddgeir Kristjánsson og Árni úr Eyjum)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON