Sjaldan gerist það að maður verði frægur á einni nóttu. Svo var þó bókstaflega um Gísla Oktavíanus Gíslason frá Uppsölum í Selárdal. Hann var nánast algjörlega óþekktur áður en Ómar Ragnarsson, landskunnur sjónvarpsmaður, bankaði upp á hjá honum árið 1981. Þátturinn Stiklur var sýndur á jóladag árið 1981. Þá var íslenskt samfélag að nútímavæðast hratt. Allir vildu eiga nýjustu tækin, hvort sem um var að ræða litasjónvarp, myndbandstæki, fótanuddtæki eða Soda-Stream. Því sat þjóðin gapandi af undrun og horfði á viðtal við mann sem virtist eins og hann væri nýkominn frá 1881. Á Uppsölum var ekkert sjónvarp eða Soda-Stream. Þar var einfaldlega ekkert rafmagn né rennandi vatn. Gísli notaðist enn þá við orf og ljá. Hann heillaði fólk þó með einlægni sinni og glettni. Einnig er ekki annað hægt en að dást að seiglunni og ósérhlífninni sem einkenndi einbúann í Selárdal. En saga hans er þó einnig harmsaga manns sem átti vonir og drauma sem ekki rættust.