Hreint út sagt - 20 ára heilsubrölt Ebbu Guðnýjar, er heiti á nýju námskeiði þar sem Ebba Guðný Guðmundsdóttir fer yfir heilsufæðissviðið á léttum nótum og mætti kannski tala um nokkurs konar heilsu uppistand en á einni kvöldstund ætlar hún að fræða fólk um hollustu og matargerð og vonar að námskeiðið blási viðstöddum byr í brjóst og hjálpi þeim að taka betur eftir því hvar má auðveldlega bæta lífsmunstrið til heilsubótar.
Á heimilum okkar erum við sífellt að takast á við breyttar aðstæður; börn fæðast, unglingar flytja að heiman, hjón skilja, nákomnir deyja. Öllum þessum breytingum fylgja gamlir og nýir hlutir. Er heimili þitt griðastaður eða óyfirstíganlegt verkefni alls konar hluta? Virpi Jokinen er vottaður skipuleggjandi og heldur erindi í kvöld um það hvernig best er að skipuleggja heimilið og öðlast hugarró.
Í dag fer fram Innblástur, opið hús á Kjarvalsstöðum frá kl. 13.-16.00, þar sem kynnt verður allt það menningar- og fræðslustarf sem stendur börnum í skóla- og frístundastarfi til boða að kostnaðarlausu. Markmiðið með Innblæstri er að bjóða starfsfólki í skóla- og frístundastarfi í borginni til nokkurs konar messu þar sem það getur kynnt sér þau fjölmörgu tilboð sem þeim stendur til boða til að glæða menntun barnanna lífi, list og menningu. Við heyrðum í Hörpu Rut Hilmarsdóttur sem var stödd á Kjarvalsstöðum.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON