Eiríkur Örn Norðdahl gaf nýverið frá sér skáldsöguna Einlægur Önd, þar sem hann leikur sér á mörkum skáldskapar og veruleika. Bókin fjallar að einhverju leyti um útskúfun, refsingu og fyrirgefningu. Þemu sem óhætt er að segja að brenni á samfélaginu dag. Eiríkur Örn segir okkur frá þessu nýja verki í þætti dagsins.
Unnur Andrea EInarsdóttir opnar sýningu í gallerí Midpunkt í Hamraborginni á föstudag. Unnur Andrea býr og starfar í Noregi en verk hennar flétta oftar en ekki saman myndböndum, innsetningum og gjörningum. Unnur skoðar meðal annars í verkum sínum hvernig stafræni samtíminn getur valdið því að einstaklingar aftengist raunsamfélagi og upplifi félagslega einangrun. VIð hittum Unni Andreu og Hrafnhildi Gissurardóttur sýningarstjóra í þætti dagsins.
Við heyrum einnig af tónleikum sem fara fram í Hafnarborg næstkomandi sunnudag, þar sem Elektra Ensamble frumflytur þrjú ný tónverk sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hópinn. Tónleikarnir eru innan Samtímatónleikaröð Hafnarborgar, Hljóðön, sem er sérstaklega tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar. Þráinn Hjálmarsson listrænn stjórnandi tónleikanna segir okkur frá höfundunum hér á eftir.