Við ræddum í þættinum við Önnu Hafberg hjúkrunarfræðing sem hefur staðið covidvaktina frá byrjun og hefur ekki fengið einn einasta frídag síðan haustið 2019. Hún var kölluð til á coviddeildina til að vera með í þróun þeirrar deildar og er nú að vinna í því ásamt fleirum að koma upp bráðadagdeild sem tekur við fólki sem þarf ekki endilega bráðaþjónustu. Anna sagði líka frá því hvernig er hægt að nýta reynsluna frá þessu tímabili áfram, eins og t.d. símaeftirfylgd með veiku fólki.
Þormóður Símonarson kom í þáttinn í dag og talaði um kærleikskast og jákvæðni. Um mánaðarmótin endurtekur hann námskeið í að fá kærleikskast. Kærleikskast er, eins og hann segir æðisleg reynsla og andstæðan við kvíðakast. Þormóður sagði okkur meira fá þessu í þætti dagsins.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Hrönn Kristinsdóttir, kvikmyndaframleiðandi. Hún er ein aðalframleiðenda kvikmyndarinnar Dýrið, eða Lamb, eins og hún kallast á ensku. Myndin hlaut Un Certain Regard verðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Cannes nú fyrir skemmstu og verður frumsýnd hér á landi á næstunni. Hrönn sagði okkur frá því hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON