Í gær hófst skráning á 17. Evrópuráðstefnu kvennasamtakanna BPW, eða European Business and Professional Women, sem fer fram í lok maí. Ráðstefnan er haldin á þriggja ára fresti og verður nú í annað sinn hérlendis. Fyrra skiptið var árið 1997 og þá mættu um 400 konur hvaðanæva að úr heiminum. Samtökin voru stofnuð árið 1919 í Bandaríkjunum með það að markmiði að koma á tengslaneti kvenna á vinnumarkaði og að skapa samstöðu þeirra á milli. Við fengum þær Jóhönnu Kristínu Tómasdóttur foseta BPW klúbbsins í Reykjavík og Marenzu Poulsen stjórnarkonu og veitingakonu í þáttinn til að segja okkur meira frá þessari ráðstefnu og samtökunum.
Hin þrítuga Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir sló til og festi kaup á garðyrkjustöð rétt fyrir utan Flúðir aðeins viku eftir að hún hóf nám í Garðyrkjuskólanum. Þar á undan bjó hún í miðbæ Reykjavíkur og hafði meðal annars lært heimsspeki í Háskóla Íslands. Núna hefur hún rekið garðyrkjustöðina upp á sitt einsdæmi í um hálft ár og er starfsemin vægast sagt umfangsmikil. Við heyrðum í þessum kraftmikla grænmetisbónda með heimspeki bakgrunn í þættinum í dag.
Þjóðfræðifeðginin Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson söfnuðu í nokkur ár sögum að álagablettum af Ströndum. Þau settu upp sýningu á afrakstrinum og gáfu svo út bók. Eins og venja er var haldið útgáfuhóf þegar bókin kom út og því var bæði var streymt og eins voru gestir á staðnum. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, var ein gesta og hún tók upp áhugaverða tölu þeirra feðgina sem við fengum að heyra í þætti dagsins.
UMSJÓN ÞORGERÐUR ÁSA AÐALSTEINSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON