Föstudagsgesturinn okkar að þessu sinni var Eyjólfur Kristjánsson tónlistarmaður, eða Eyfi eins og hann er alltaf kallaður. Eyfi verður sextugur þann 17.apríl. Hann hefur verið að alveg síðan hann spilaði á gítar og söng fyrir skíðagesti í Kerlingarfjöllum á áttunda áratugnum, hvar hann starfaði sem skíðakennari. Hann spilaði með hljómsveitinni Hálft í hvoru og kom fram á vísnakvöldum þegar Vísnavinir voru uppá sitt besta. Hann var meðlimur í Bítlavinafélaginu og hefur átt farsælan sólóferil, átt nokkur af bestu Eurovisionlögum okkar t.d. Draum um Nínu sem þjóðin kaus einhverju sinni besta lagið í þeirri keppni. Á milli þess sem hann leggur stund á tónlist, hvíttar hann tennur og sveiflar golfkylfum.
Í matarspjalli dagsins spjölluðum við um ódýran og góðan mat sem auðvelt er að rétta. Nýverið kom út bókin Undir 1000 fyrir tvo eftir Áslaugu Björgu Harðardóttur. Hún segist hafa tekið upp á því að setja saman þessa bók eftir að vera búin að púsla tíu þúsund púsl í kófinu. Áslaug var með okkur í matarspjalli dagsins.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON