Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Eyþór Ingi Gunnlaugsson, söngvari, tónlistarmaður og skemmtikraftur. Hann er á 34 aldursári en hefur gert ótrúlega margt á sínum ferli. Hann var 15 ára gamall þegar hann fékk hlutverk í söngleiknum Oliver sem settur var upp hjá Leikfélagi Akureyrar og árið 2007 sigraði hann söngkeppni framhaldsskólanna. Árið 2008 vann hann í keppninni Bandið hans Bubba, sem var á Stöð 2 og eftir það var ekki aftur snúið, Eyþór Ingi var mættur í bransann. Hann söng fyrir Íslands hönd í Eurovision lagið Ég á líf árið 2013, hann lék eitt aðalhlutverkið í Rocky Horror og nú síðustu ár hefur hann einn og sér farið um landið fyrir jólin og fyllt félagsheimili og kirkjur með fallegum söng og eftirhermum í bland. Eyþór hefur frá barnæsku haldið mikið upp á Ladda og í rauninni hefur hann leikið og hermt á eftir grínkarakterum Ladda síðan í æsku. Laddi og Eyþór eru góðir vinir í dag og hafa komið talsvert fram saman og enn er tækifæri til að sjá þá í Bæjarbíói í Hafnarfirði.
Í matarspjallinu í dag töluðum við um ristað brauð. Og ristað brauð er ekki bara ristað brauð. Það voru ræddar ýmsar útfærslur og minningar tengdu því í matarspjallinu í dag.
Tónlist í þættinum í dag:
Aftur heim til þín / Eyþór Ingi og Lay Low (Baldur Hjörleifsson og Jónína Guðrún Eysteinsdóttir)
Amorsvísa (Til Soffíu) / Eyþór Ingi og Atómskáldin (Eyþór Ingi Gunnlaugsson)
Ég á líf / Eyþór Ingi Gunnlaugsson (Örlygur Smári og Pétur Örn Guðmundsson)
Ristað brauð með smjöri / Hemmi Gunn og Rúnar Júlíusson (texti Rúnar Júlíusson)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR