Við fengum Vigdísi Jónsdóttur, framkvæmdastjóra VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, í þáttinn í dag. Hún fór yfir starfsemi VIRK á ársfundi starfsendurhæfingarsjóðsins sem haldinn var rafrænt nýverið. Þar greindi Vigdís stöðuna og helstu áskoranir og talaði meðal annars um svokallaðan faraldur skertrar starfsgetu. Vigdís sagði meira frá þessu í þættinum.
Saga holdsveikinnar á Íslandi er samofin sögu hennar í Noregi. Sjúkdómurinn barst til Íslands í byrjun fimmtándu aldar og í báðum löndum var hann upprættur nær sex öldum síðar. Síðasti holdsveikisjúklingurinn á Íslandi lést árið 1979. Við fengum dr. Erlu Dóris Halldórsdóttur til að glugga með okkur í stórmerkilegt heimildarit eftir hana, en í þeirri bók er baráttan gegn þessum hryllilega sjúkdómi rakin og sagt frá læknismeðferð, holdsveikisspítulum sem settir voru á fót og örlögum sjúklinga sem fjarlægðir voru af heimilum sínum og gert að búa í sérstökum einangrunarbúðum.
Kontóristinn, Steinar Þór Ólafsson, er komin aftur á dagskrá Mannlega þáttarins eftir rúmlega árs hlé. Næstum ári áður en fyrsta kórónuveirusmitið var greint á Íslandi fjallaði Kontóristinn um króka og kima fjarvinnunar. Þá höfðu fáir einhverja reynslu af fjarvinnu en núna hafa nánast allir tekið þátt í þessari fjarvinnurannsókn sem lögð hefur verið fyrir heimsbyggðina. Nú, þegar sér fyrir endann á þessu tímabili, má spyrja sig hvað fólki og fyrirtækjum finnist um reynsluna. Þetta skoðaði Kontóristinn Steinar Þór í pistli dagsins.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON