Innan skamms verða liðin tvö ár frá því að heimsfaraldurinn lét til skarar skríða og síðan höfum við kynnst takmörkunum sem líklega engin okkar bjóst við að við ættum eftir að upplifa. Til dæmis er það er augljóst að skólaganga krakka og unglinga undanfarin tvö ár er gerólík því sem hún var. Félagslíf skólanna, sem stuðlar að félagsþroska unga fólksins á þessum mikilvægu mótunarárum, hefur verið, í besta falli, skugginn af því sem það áður var. Það er meiri hætta á að einangrast í þessu ástandi og félagstengsl og samskipti hafa farið að miklu leyti yfir á stafrænt form. Hvaða áhrif hefur þetta haft á unga fólkið? Hafa þau misst af mikilvægum félagsþroska og jafnvel misst niður hæfileikann til samskipta? Jón Jósafat Björnsson, framkvæmdastjóri Dale Carnegie kom í þáttinn og ræddi þessi mikilvægu mál.
Allt frá árinu 1960 hefur Þjóðminjasafn Íslands staðið fyrir söfnun þjóðhátta og þannig skipulega safnað heimildum um lífshætti á Íslandi með því að semja spurningaskrár og safna svörum almennings. Nýverið sendi safnið út spurningaskrá um sjálfbært, heilsusamlegt mataræði og óskar eftir góðri þáttöku landsmanna. Helga Vollertsen sérfræðingur þjóðhátta við Þjóðminjasafn Íslands seagði okkur frá þessu og einnig frá fyrirlestri sem fram fer í hádeginu á morgun um íslenska matarmenningu út frá þeim aragrúa upplýsinga sem þjóðháttasafnið varðveitir.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kennslukona í Borgarholtsskóla. Við fengum að vita hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON