Við heyrðum í Felix Bergssyni fararstjóra íslenska hópsins, sem heldur utan til að keppa í Eurovision í Tórínó á Ítalíu, og stjórnanda Alla leið sjónvarpsþáttana, en fyrsti þátturinn var einmitt sýndur á RÚV um helgina. Felix sagði okkur frá undirbúningi keppninnar hér heima og úti og starfi sínu sem fulltrúi í stýrihópi Eurovision.
Þór Fjalar Hallgrímsson hefur verið í starfskynningu undanfarið hjá okkur hér á Rás 1. Hann hefur fundið áhugavert efni í safni útvarps sem við höfum flutt hér í þættinum en í dag spiluðum við viðtal sem hann tók við Ægi Rafn Ingólfsson, tannlækni og jóga- og hugleiðslukennara, en hann hefur skipulagt karlaferð á Hornstrandir í sumar.
Á jörðinni Ásmundarnesi í Bjarnarfirði var stundaður hefðbundinn sauðfjárbúskapur fram undir 1970, eftir það lagði ábúandinn, Guðmundur Halldórsson, stund á lax- og silungseldi á jörðinni. Nýlega tók svo nýr eigandi Gísli Ólafsson við jörðinni og framundan eru miklar framkvæmdir. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, hitti Gísla og bað hann að segja frá nýju hlutverki Ásmundarness.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON