Eurovisionkeppnin er orðin hálfgerður vorboði og þá hefja þættirnir Alla Leið einnig göngu sína í sjónvarpinu að nýju. Hvernig fer keppnin fram í ár í heimsfaraldrinum? Felix Bergsson kom til okkar með nauðsynlegar upplýsingar og sagði okkur allt sem við vildum vita um keppnina í ár.
Arðsemi hamingjunnar á landsbyggðinni - Ný heimssýn á nýjum tímum er heitið á ráðstefnu á vegum FKA, eða landsbyggðadeilda Félags kvenna í atvinnulífinu. Þar verður velt fyrir sér hver tækifæri landsbyggðarinnar eru nú í kjölfar síðasta árs þar sem fólk hefur verið að vinna meira að heiman og í gegnum netið og fjarfundabúnað. Þar verður meðal annars rætt um sunnlenska-módelið, úthýsingu starfa, nándina í fjarlægðinni og hvort lítil bæjarfélög séu að endurheimta sinn fyrri sjarma og þar með fólkið. Við fengum Margréti Jónsdóttur Njarðvík rektor Háskólans á Bifröst til þess að segja okkur meira frá því sem þarna fer fram, en hún er ein þeirra sem talar á ráðstefnunni.
Við fengum póskort frá Magnúsi R. Einarssyni á Spáni í dag. Í korti dagsins greinir frá hugmyndum spænskra vísindamanna um nýja nálgun í baráttunni við kórónuveiruna sem felst aðallega í því að hætta að sótthreinsa alla snertifleti en taka þess í stað að lofthreinsa meira innandyra. Einungis 0,01 prósent smita verður við snertingu en mest allt smit verður innandyra og því meiri hætta eftir því sem loftgæði eru minni. Það var líka sagt frá lagasetningu sem bannar frá og með árinu 2040 alla sölu á bílum sem blása út koltvísýringi. Undir lokin var svo sagt frá netglæpum sem hafa margfaldast eftir að kórónufaraldurinn hófst.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON