Við heimsóttum Sigurlaugu Kristmannsdóttur, fjarnámsstjóra Verslunarskóla Íslands og skoðuðum gríðarstórt landakort sem hangir uppá vegg á skrifstofunni og þar er búið að merkja inn staði um víða veröld, þar sem nemendur stunda og hafa stundað fjarnám og tekið próf. Þessi próf eru oftast tekin í sendiráðum eða á skrifstofum ræðismanna og ástæður þess að nemendur eru dreifðir um víða veröld, eru margar. Sumir eru að æfa íþróttir, fótbolta , handbolta og aðrir eru í listnámi td ballet, svo eru margir skiptinemar sem stunda námið.
Mikil umræða hefur verið undanfarin ár um tölvuleikjafíkn og afleiðingar tölvuleikja í óhófi. En hin hliðin á ástundun tölvuleikja heyrist sjaldnar. Rafíþróttir er samheiti yfir skipulagða keppni í tölvuleikjum, þær hafa verið í miklum uppgangi á Íslandi og um allan heim síðustu ár. Glímufélagið Ármann hefur hafið samstarf við Rafíþróttaskólann og bjóða upp á æfingar í rafíþróttum í haust fyrir ungmenni á aldrinum 10-15 ára. Við fengum Arnar Hólm Einarsson, yfirþjálfara Rafíþróttadeildar Ármanns til að segja okkur frekar frá þessu.
Garðyrkjufræðingar Grasagarðsins, félagar frá Garðyrkjufélag Íslands og meðlimir úr Slow Food á Íslandi standa fyrir fræðslufundi í næstu viku um leiðir til að meðhöndla uppskeruna úr matjurta- og kryddjurtagarðinum svo ekkert fari til spillis og fjalla um hvernig er best að undirbúa matjurtagarðinn fyrir veturinn. Þá verður gestum boðið að smakka á krásum úr matjurtagarðinum. Við heyrðum í Björk Þorleifsdóttur, verkefnastjóra fræðslu og miðlunar hjá Grasagarðinum í þættinum.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON