Þórhildur Magnúsdóttir heldur úti Instagramsíðunni Sundur og saman og býður meðal annars uppá námskeið sem heitir Stórkostleg sambönd sem eru paranámskeið með það að markmiði að bæta sambandið. Þessi síða hefur vakið mikla athygli fyrir nýja nálgun á sambönd þar sem áherslan er á að rækta sjálfan sig frá makanum og þannig rækta sambandið. Þórhildur og eiginmaður hennar eru í fjölkæru hjónabandi, sem þýðir að þau geta átt samband við fleiri en einn aðila og Þórhildur ræðir opinskátt um hjónaband þeirra á sinni síðu. Þórhildur sagði frá í þættinum í dag.
Nýlega var samþykkt Lýðræðisstefna Reykjavíkurborgar, sem miðar að því að efla lýðræðislega þátttöku borgarbúa og auka möguleika íbúa til þess að hafa áhrif á málefni sem þá varða. Lýðræðisstefna þessi tengist mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Ellen Calmon, kennari, borgarfulltrúi og fyrrverandi formaður Öryrkjabandalags Íslands, kom í þáttinn og meðal annars útskýrði fyrir okkur hugmyndafræði algildrar hönnunar og samlegðaráhrif mannréttinda.
Að lokum var Ása Baldursdóttir hjá okkur í dag, en hún er sérfræðingur í hlaðvörpum og sjónvarpsþáttum. Hún er afskaplega fundvís á áhugavert efni og í dag fjallaði Ása til dæmis um hlaðvarpið Why Won't You Date Me? þar sem farið er yfir misheppnuð stefnumót og bráðfyndna konu sem verður eflaust einhleyp að eilífu, svo sagði hún frá hlaðvarpinu The Teacher?s Pet sem fjallar um gamalt sakamál frá níunda áratugnum í Ástralíu þar sem eiginkona kennara hverfur sporlaust og ýmsir dularfullir hlutir fara gerast í kjölfarið. Að lokum sagði hún frá fyrstu færeysku dramasjónvarpseríunni, TROM, sem fjallar um morð framið í skugga hvalveiða.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON