Flateyjarbók hefur löngum verið talið merkasta íslenska miðaldahandritið og það kom til Íslands í apríl 1971, ásamt Konungsbók eddukvæða, við hátíðlega athöfn eins og margir muna eftir. En hversu vel þekkjum við Flateyjarbók? Þungamiðja handritsins eru sögur fjögurra norskra konunga en í þeim eru fjölmargir þættir sem m.a. fjalla um íslensk málefni. Fyrst af þessum sögum er Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta, samin á 14. öld. Ólafur var sá sem kristnaði Ísland og því verður kristnitaka Íslands mjög til umfjöllunar á sérstöku námskeiði um Flateyjarbók, sem Ármann Jakobsson mun sjá um og hann sagði okkur nánar frá Flateyjarbók og þessu námskeiði í þættinum í dag.
Sófinn í stofunni hefur eflaust verið mörgum huggun og kannski helsti íverustaður í heimsfaraldrinum. En hvernig væri að koma sér uppúr sófanum og ná, með markvissum og öruggum aðferðum, að koma sér í það form og ná upp þolinu til að geta t.d. hlaupið í 30 mín. Við fengum Gunnhildi Sveinsdóttur til að segja okkur frá fjarhlaupanámskeiði á vegum SÍBS í þættinum í dag.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Karítas M. Bjarkadóttir, ritstýra Stúdentablaðsins og íslenskufræðingur. Við fengum að vita hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og svo hvaða bækur og höfundar hafa haft sérstök áhrif á hana í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON