Við fengum Sóley Tómasdóttur til að koma í þáttinn í dag og ræða við okkur um umræðuna og stöðuna í samfélaginu þegar sífellt fleiri stíga fram og segja reynslusögur sínar af ofbeldi og áreitni. Á undanförnum árum, eftir að þögnin var rofin með kynferðislega áreitni og ofbeldi, þegar þolendur fóru að opna sig um reynslu sína af ofbeldi og áreitni í kjölfar #metoo þá hefur auðvitað heilmikið breyst. En svo kann samfélagið kannski ekki nógu vel að taka næstu skref. Hvað svo? Hver eru næstu skref ef einhver verður uppvís að hegðun sem er ekki í lagi? Það eru óteljandi hlutir sem flækja þessa umræðu og næstu skref. Sóley fer í fyrirtæki og talar um einmitt þetta, hvert við erum komin og af hverju þessi skref geta verið svona erfið og við ræddum það við hana í þættinum.
Guðrún Hálfdánardóttir, dagskrárgerðarkona á Rás 1 og Margrét Manda Jónsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri á meðferðargeðdeild geðrofssjúkdóma, komu í þáttinn, en þær, ásamt Tómasi Hrafni Ágústssyni sérnámslækni í geðlækningum, standa að baki Geðbrigði, nýjum útvarpsþáttum sem hefja göngu sína á morgun á Rás 1 og fjalla um geðheilbrigðismál. Í fyrsta þætti verður fjallað um þunglyndi. Hvaða meðferðir og úrræði eru í boði og hvaða árangri þau skila. Þær Guðrún og Margrét sögðu okkur frá þessari nýju þáttaröð í dag.
Erla Súsanna Þórisdóttir byrjaði að skrifa í þakklætisdagbók fyrir mörgum árum en fann að það þurfti mikinn sjálfsaga til að skrifa í auða stílabók. Hún fór síðan í nám í jákvæðri sálfræði og þar var mikið fjallað um þakklæti út frá þeim fræðum og þá kviknaði aftur áhugi hennar á að iðka þakklæti. Nú hefur Erla gefið út þakklætisdagbók sem hjálpar fólki að stunda þakklætisskrif og að viðhalda þeim og áhrif þakklætisiðkunar. Erla býr í Danmörku og við slógum á þráðinn til hennar í þættinum.
Tónlist í þættinum í dag:
Aldrei verða án hans haldin jól / Stebbi og Eyfi (Eyjólfur Kristjánsson)
Out in the Cold Again / Dean Martin (Ted Koehler og Rube Bloom)
Jólin með þér / Ragnheiður Gröndal (Ragnheiður Gröndal)
Klukknahreim / Manuela Wiesler (James Pierpoint)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR