Í síðustu viku var Kristín Vilhjálmsdóttir lesandi vikunnar og þá sagði hún okkur meðal annars frá bók sem hún var að lesa um svokallað FODMAP mataræði fyrir fólk sem er viðkvæmt í maga. Það vakti forvitni okkar, því fengum við Ingunni Ingvarsdóttur, klínískan næringafræðing hjá LSH í þáttinn í dag til að segja okkur meira frá þessu.
Dagana 20.-22. september 2019 heldur „Ráð evrópskra formæðra“ friðarþing á Íslandi. Í því sambandi koma 21 eldri konur frá 14 löndum auk gesta til landsins. Ráð evrópskra formæðra hefur í samvinnu við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi skipulagt veglega dagskrá í tilefni Friðardagsins, sem hefur verið haldinn árlega frá árinu 1981 að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna. Monica Abendroth hörpuleikari sagði nánar frá í þættinum í dag.
Jón Þórðarson sem kominn er á áttræðisaldur hefur stundað hestamennsku nær allt sitt líf og þekkir sögu greinarinnar hér á landi mjög vel. Jón kom í heimsókn á Strandir og Kristín Einarsdóttir settist niður með honum eftir vel heppnaðan reiðtúr og fékk að heyra brot af því sem Jón hefur að segja um umgengni við hesta og reiðmennsku yfirleitt.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON