Alexía Margrét Jakobsdóttir hlaut viðurkenningu Sálfræðingafélags Íslands fyrir framúrskarandi lokaverkefni fyrir meistararitgerð sína í klínískri sálfræði. Ritgerðin ber heitið Efling foreldrafærni meðal flóttafólks: Er það fýsileg meðferðarnálgun við íslenskar aðstæður? Flóttafólk er sístækkandi hópur í Evrópu og víðar sem glímir við mikið álag og áföll, það var því fróðlegt að fá Alexíu Margréti til að segja okkur frá efni ritgerðarinnar og því hverju hún komst að í þættinum í dag.
Ævintýrið Hver vill hugga krílið? er tónverk sem segir frá litlum dreng sem er mjög feiminn og þorir ekki að vingast við nokkurn fyrr en hann hittir litla stúlku sem er enn hræddari við lífið en hann. Þá finnur hann kjarkinn. Tónverkið er fyrir barnakór, hljómsveit og sögumann. Verkið er eftir Olivier Manoury og er samið við sögu Tove Jansson í þýðingu Þórarins Eldjárn. Edda Erlendsdóttir píanóleikari kom í þáttinn og sagði frá.
Í gær voru liðin 74 ár frá því að Atómstöðin eftir Halldór Laxness kom út. Þór Fjalar Hallgrímsson, nemi í hagnýtri menningarmiðlun hjá Háskóla Íslands, er þessa dagana í starfsnámi hér á Rás 1 og hann fann í safni útvarpsins viðtal sem Matthías Johannessen tók við skáldið árið 1964. Við fengum Þór til að klippa fyrir okkur bút úr viðtalinu, þar sem Halldór ræðir meðal annars um æskuminningar, ömmu sína og föður sinn og við fluttum þennan bút í þættinum.
Ása Baldursdóttir kom til okkar í dag og sagði okkur frá áhugaverðum hlaðvarpsþætti og heimildarmynd og hún var ekkert að spara stóru orðin þegar hún sendi okkur upplýsingar um efni dagsins: Hún sem sagt sagðist ætla að segja frá einu svakalegasta glæpahlaðvarpi sem hún hefur hlustað á og einni bestu tónlistarheimildarmynd sem hún hefur séð á ævinni, og þó er af nógu að taka. Ása réttlætir þessi stóru orð í þættinum, en hlaðvarpsþáttaröðin heitir The Thing About Pam og tónlistarheimildamyndin heitir Homecoming eftir Beyonce Knowles.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON