Frístundamiðstöðin Tjörnin sem starfar í Miðborg, Hlíðum og Vesturbæ, hefur gefið út handbók fyrir foreldra um foreldrarölt. Í henni er fjallað um hvers vegna foreldrarölt skiptir svona miklu máli og settar fram tillögur að því hvernig foreldrar geta skipulagt sig. Þá eru í handbókinni upplýsingar um tengiliði. Foreldraröltið tengir saman foreldra, styrkir þau í hlutverkinu sínu og stuðlar að öruggara nærumhverfi fyrir börn og unglinga. Þær Andrea Marel og Eva Halldóra Guðmundsdóttir frá Frístundamiðstöðinni Tjörninni komu í þáttinn og sögðu frá.
Dáleiðslumeðferð er ekki viðurkennt meðferðarform hér á landi og er því ekki inní heilbrigðiskerfinu. Við ræddum við hjúkrunarfræðinginn Sigríði A Pálmadóttur sem hefur starfað við hjúkrun í 40 ár en síðasta eina og hálfa árið eingöngu sem dáleiðari.
Lesandi vikunnar var Ragnheiður Heiða Árnadóttir söng- og tónlistarkona. Hún sagði okkur hvaða bækur eru á náttborðinu hjá henni, hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina. Og svo sagði hún okkur frá nýjum geisladiski, Aðventa, sem hljómsveit hennar Mógil var að gefa út.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON