Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarkona var föstudagsgesturinn okkar í dag. Eftir nám í Myndlista- og handíðaskólanum fór hún í nunnuklaustur í Róm þar sem hún dvaldi í sex mánuði '87?'88 og lærði þar m.a. um íkonalist, en hún hélt t.d. eina íkonasýningu árið 1994. Eftir dvölina í klaustrinu lá leiðin í Akademíu hinnar fögru lista í Flórens þar sem hún lagði meðal annars stund á grafík, ferskumálun og lagningu blaðgulls sem hún hefur mikið notað í verkum sínum. Kristín dvaldi á Ítalíu í átta ár. Upp úr bankahruninu 2008 fór Kristín að sauma úr afgangsull og athygli vöktu myndir hennar af píkum og hafa verk hennar bæði hangið uppi í kirkju og á dekkjaverkstæði. Kristín er alin upp á Akureyri, er sænsk í móðurættina og býr nú á Seltjarnarnesi.
Kristín sat svo áfram með okkur í Matarspjallinu með Sigurlaugu Margréti. Þar ræddum við um matinn sem hún fékk í dvöl sinni í nunnuklaustrinu í Róm. Svo rifjuðu þær Sigurlaug upp lasagna sem Kristín eldar gjarnan, sem í grunninn kemur úr Knorrpakka og smákökur, til dæmis blúndubuxur, sem hún segir að sé nánast ómögulegt að borða snyrtilega.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON