Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var leikkonan Saga Garðarsdóttir. Hún hefur skemmt landsmönnum bæði með uppistandi, í sjónvarpi, áramótaskaupum, í kvikmyndum, á leiksviði auk þess að hafa samið talsvert af gamanefni fyrir margvísleg verkefni, sjónvarpsþætti og skemmtanir. Við ræðum við hana um uppvöxtinn og æskuna og ferðalagið í gegnum lífið til dagsins í dag, en um síðustu helgi var frumsýnt leikritið Veisla í Borgarleikhúsinu þar sem hún fer á kostum, bæði á leiksviðinu og sem einn höfunda verksins. Saga deildi með okkur skemmtilegum sögum og sagði okkur frekar frá þessari nýju sýningu.
Í matarspjalli dagsins var Eurovision þema þar sem lögð var megináherslan á ídýfur, eins og til dæmis ein útfærslan sem jafnan er kölluð því sérstaka nafni eðla. Sigurlaug Margrét hafði aldrei heyrt á eðlu minnst í þessu samhengi og létti talsvert að heyra að ekki var átt við bókstaflega og lifandi eðlu.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON