Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Þorsteinn J. Vilhjálmsson. Hann er auðvitað þekktastur fyrir að hafa í gegnum tíðina stjórnað fjölda útvarpsþátta og sjónvarpsþátta, hann hefur skrifað bækur og komið víðar við. Við forvitnuðumst um æskuna og uppvaxtarárin, fjölmiðlaferilinn, þegar hann tók t.d. þátt í upphafsárum Bylgjunnar og svo almennt um þá dagskrárgerð sem hann hefur sinnt alveg síðan, bæði í útvarpi og í myndmiðlum t.d. í sjónvarpi. Svo sagði Þorsteinn okkur frá nýju sjónvarpsþáttunum sem hann hefir verið að gera, fyrir Sjónvarp Símans, sem heita Sögur sem breyta heiminum. Þar tekur hann viðtöl við fjóra einstaklinga sem tóku ákvörðun sem breytti lífi þeirra.
Í matarspjalli dagsins þá ætluðum við að ræða létt sumarsalöt, en við vorum kannski komin aðeins á undan okkur, eða aðeins á undan veðrinu öllu heldur, af því að við erum raunsæisfólk og það þarf ekki annað en að líta út um gluggann til að sjá að það er ekki komið sumar, þannig að við ræddum líka matarmikil salöt og fleira.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON