Föstudagsgestir Mannlega þáttarins í þetta sinn voru þau Unnur Ösp Stefánsdóttir og Guðjón Davíð Karlsson leikarar, ein þau leika einmitt útgerðarhjónin Freydísi og Einar í sjónvarpsþáttaröðinni Verbúðin sem nú hafa lokið göngu sinni á RÚV. Það er ekki hægt að segja annað en að þættirnir hafi orðið geysivinsælir, fólkið í landinu gat fyllst af nostalgíu í gegnum þættina, verbúðarlífið á níunda áratug síðustu aldar, tískan, tónlistin og kvótakerfið. Það var um nóg að tala við þau Unni Ösp og Góa í þættinum i dag.
Í matarspjalli dagsins kom Knútur Rafn Ármann búfræðingur frá Hólum, en hann rekur ásamt eiginkonu sinni, Helenu Hermundardóttur garðyrkjufræðings frá Reykjum og fimm börnum sínum tómataræktina í Friðheimum í Grímsnesi. Þau heita Dóróthea, Karítas, Matthías Jens, Arnaldur og Tómas Ingi og öll taka þau virkan þátt í búskapnum. Fjölskyldan tekur líka á móti gestum, sýnir þeim hvernig tómataræktunin gengur fyrir sig og gefur þeim að smakka á afurðunum. Sem sagt tómatar í matarspjalli dagsins.
Umsjón Guðrún Gunnarsdóttir og Sigurlaug Margrét Jónasdóttir