Leifur Reynisson sagnfræðingur kom í þáttinn í dag og sagði okkur frá verkefni sem hann hefur unnið með eldri borgurum síðastliðin tvö ár til að rjúfa félagslega einangrun þeirra eftir Covid. Hann hefur farið á milli félagsmiðstöðva eldri borgara í Reykjavík og sýnt ljósmyndir á breiðtjaldi. Myndirnar eru frá tímabilinu 1940-1960 og voru fengnar hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Leifur efnir svo til umræðna um myndirnar, því þær til dæmis varpa ljósi á æsku og æskuumhverfi eldri borgaranna og rifja upp persónulegar minningar. Leifur sagði okkur betur frá þessu áhugaverða verkefni í þættinum.
Gæludýr verða oft dýrmætir fjölskyldumeðlimir en þau lifa yfirleitt skemur en eigendurnir. Því getur fylgt mikil sorg að missa gæludýrin sín og Sólrún Barbara Friðriksdóttir dýralæknir sem starfar hjá Dýraspítalanum Garðabæ kom í þáttinn í dag og fræddi okkur um praktíska hliðarnar sem þarf að huga þegar gæludýr fellur frá. Svo ræddum við líka aðeins hvernig áramótin og flugeldarnir geta farið í gæludýrin.
Svo kom Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur til okkar í veðurspjall. Nú var hún komin með formlegar tölur um veðrið í fyrra og samanburð við fyrri ár. Sem sagt hvernig veðurárið 2022 var bæði hér á landi og um allan heim og hvað er hægt að lesa úr því öllu saman.
Tónlist í þættinum í dag:
Það er svo ótalmargt / Ellý Vilhjálms (Jackie Smith, Derry Lindsay og Jóhanna Erlings Gissurardóttir)
Ennþá man ég hvar / Hallbjörg Bjarnadóttir (Mogens Dam, Kaj Andersen og Bjarni Guðmundsson)
Tipp topp / Prins Póló (Svavar Pétur Eysteinsson)
Sönn ást / Björgvin Halldórsson (Magnús Eiríksson)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG BRYNHILDUR BJÖRNSDÓTTIR