Geðfræðslufélagið Hugrún er rekið í sjálfboðaliðastarfi af háskólanemum og snýr öll starfsemi félagsins að því að bæta geðheilsu ungmenna á Íslandi og auka aðgengi að geðfræðslu. Nú yfir páskana gaf félagið út myndbönd með yfirskriftinni ?Tölum meira um geðheilsu!?. Um er að ræða þrjú stutt myndbönd sem eru ætluð til þess að vekja fólk til umhugsunar um geðheilsu og markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi þess að tala opinskátt um geðheilsu. Vonin er sú að með tímanum verði eins eðlilegt að ræða um geðheilsu sína og það er að ræða líkamlega heilsu. Ragna Kristín Guðbrandsdóttir, varaformaður og fulltrúi læknanema í stjórn Hugrúnar og Inga Birna Sigursteinsdóttir fræðslustýra félagsins komu í þáttinn í dag og fræddu okkur meira um félagið og þetta átak.
Við fengum vinkil frá Guðjóni Helga Ólafssyni í dag og í þetta sinn lagði hann vinkilinn að menningarmun þeirra sem búa í skógi vöxnu landi og þeirra sem gera það ekki.
Svo kom Elín Björk Jónasdóttir til okkar í sitt vikulega veðurspjall. Við fórum með henni yfir vorveðrið framundan og að þó mars hafi verið kaldur hér á landi þá var hann einn hlýjasti marsmánuður frá upphafi mælinga á heimsvísu.
Tónlist í þættinum í dag:
Árið 2012 / Vilhjálmur Vilhjálmsson (Buck Owens, Magnús Ingimarsson og Ómar Ragnarsson)
Það er svo skrýtið / Vilhjálmur Vilhjálmsson (Magnús Eiríksson og Vilhjálmur Vilhjálmsson)
Dans gleðinnar / Vilhjálmur Vilhjálmssson (Pálmi Gunnarsson og Kristján frá Djúpalæk)
Ég fer í nótt / Vilhjálmur Vilhjálmsson (Joe Allison, Audrey Allison og Ómar Ragnarsson)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON